149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:58]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mig langar í þessari ræðu minni að halda áfram með þann hluta af ræðum mínum sem ég kýs að kalla: Og hvað svo? Hvað tekur við, annaðhvort strax við innleiðingu reglnanna eða við lagningu sæstrengs þegar þar að kemur? Það sem mig langaði að koma inn á í ræðunni er fyrirsjáanleg þróun verðlags á innanlandsmarkaði. Þarna koma nokkrir þættir til, að hluta til koma til atriði strax við innleiðingu, svo sem hækkað eftirlitsgjald sem er kannski ekki stóri kostnaðarpósturinn en samt ástæða til að nefna því að hann, eins og ég segi, kemur til strax við innleiðingu.

Í umsögn Samorku, með leyfi forseta, var rakið sjónarmið Samorku um þessa innleiðingu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Með þetta í huga getur Samorka ekki tekið undir nauðsyn þess að hækka eftirlitsgjöld samkvæmt 31. gr. raforkulaga í þeim mæli sem lagt er til í 6. gr. frumvarpsins og skiptir þá ekki máli þó gert sé ráð fyrir að hægt verði að varpa umræddum kostnaði út í verð þjónustunnar.“

Það er svo sem heiðarlegt að Samorka sem regnhlífarsamtök, fyrirtæki á orkumarkaði, er ekkert að fara í felur með það að þessum kostnaði verður auðvitað velt út í verðlagið. Það er svo sem einnig fyrirséð með annan kostnað sem af þessu hlýst. En þetta er það sem kemur til strax.

Síðan er það sú þróun sem mun verða við tengingu markaðarins, ekki síðar, að við nálgumst eitthvert meðal- eða markaðsverð í Evrópupottinum, og þá erum við komin á stað sem er svo sem óumdeilt að verðlagning verður til fyrirtækja og einstaklinga umtalsvert hærri en það sem við þekkjum á Íslandi. Þá segja margir: Bíddu, er eitthvað athugavert við það að við borgum sama raforkuverð og í Evrópu? Svar mitt við því er: Já, staðan er þannig að það er býsna harðbýlt í þessu fallega landi okkar hérna norður í Atlantshafi og það er margt sem vinnur gegn okkur, sérstaklega þeim fyrirtækjum sem hér starfa og gerir þeim erfiðara í samkeppninni við fyrirtæki á alþjóðavísu. Eitt af samkeppnisforskotum fyrirtækja á Íslandi hefur verið hagstætt raforkuverð og ég held að ef við sjáum fram á að það samkeppnisforskot verði tekið af þeim fyrirtækjum, hvort sem um er að ræða iðnfyrirtæki, stóriðju, grænmetisframleiðendur, annan landbúnað, eða í rauninni hvert sem litið er, munu þau fyrirtæki finna verulega fyrir því að þetta samkeppnisforskot sé tekið af þeim sem hér starfa. Það mun auðvitað ýta undir það að starfsemin mun dragast saman á Íslandi eða flytja að fullu til útlanda, annaðhvort nær mörkuðum eða nær uppsprettu þeirra náttúruauðlinda sem þarf að nota til framleiðslunnar.

Nú þekkir maður ágætlega þau miklu áhrif sem stóriðjan hefur á þá geira sem þjónusta þau fyrirtæki og ég held að menn verði að greina almennilega hver langtímaáhrifin verða. Það dugar ekki og er bara ekki sanngjarnt að menn reyni að sleppa svo billega frá þessari umræðu með því að segja: Af hverju ættum við ekki að geta borgað sama verð og fyrirtæki og heimili í Evrópu? Eins og ég segi er ýmis annar kostnaður sem er hærri hér vegna legu og smæðar þjóðarinnar og mér þykir alveg sjálfsagt að við reynum að tryggja þá stöðu að íslensk fyrirtæki og heimili njóti hagstæðs raforkuverðs um fyrirsjáanlega framtíð.