149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:12]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég hef áhuga á að spyrja hann aðeins út í skýrslu verkefnisstjórnar sæstrengs til iðnaðar- og viðskiptaráðherra frá því í júlí 2016. Þetta er athyglisverð skýrsla að mörgu leyti og gott innlegg inn í þessa umræðu hér. Á bls. 16 segir, með leyfi forseta:

„Landsnet birtir reglulega áætlun sína um uppbyggingu flutningskerfis raforku til næstu tíu ára.“

Rætt er um kerfisáætlun Landsnets 2015–2024. Í skýrslunni er ítarleg umfjöllun um mögulega uppbyggingu meginflutningskerfisins ef sæstrengur verður lagður og áhrif þess. Það kemur fram í þessari skýrslu að búið er að leggja heilmikla vinnu í undirbúning, rannsóknir og annað, sem tengist því að hér kæmi sæstrengur. Rætt er um stækkaðar og nýjar vatnsaflsvirkjanir sem byggðar yrðu vegna sæstrengs og auk þess er rætt um að meta þurfi breyttan rekstur vatnsaflsvirkjana með tilliti til flóðbylgjuhættu sem geti ógnað almannaöryggi. Síðan er rætt um tæknileg atriði er varða hugsanlegan sæstreng til Evrópu og áhrif hans á flutningskerfi raforku.

Hér er skýrsla til ráðuneytisins og alveg klárt að búið er að leggja gríðarlega vinnu í þetta verkefni. Nú á að fara að setja hér lög, svokallaða fyrirvara, um að hér verði ekki lagður sæstrengur. Í ljósi allrar þessarar vinnu spyr ég: Er ekki frekar ótrúverðugt (Forseti hringir.) að síðan eigi að stöðva þetta með lögum? Verða þessi lög ekki bara afnumin fljótlega eftir að þau verða sett?