149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:19]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé rétt að halda því til haga að ég er fylgjandi frekari orkuvinnslu og styrkingu dreifikerfis raforku innan lands þannig að það sé ekki skilið þannig að því sé öfugt farið. Ég veit að óskað var eftir því að kalla samtök eins og Landvernd fyrir utanríkismálanefnd en því var hafnað á síðasta fundi nefndarinnar, á þeim fundi sem málið var tekið út, í ljósi þess að það hafði vakið athygli að samtök eins og Landvernd höfðu ekki einu sinni skilað inn umsögn um málið. Ég þekki það svo sem ekki hver var ástæða þess en það mun eflaust koma fram á næstu dögum, vikum eða mánuðum.

Það vakti sérstaka athygli að nokkur samtök skiluðu ekki inn umsögn við þetta risastóra mál. Ég leyfi mér að nefna Landvernd og ýmis umhverfisverndarsamtök. Ég leyfi mér að nefna Samál en mér þótti mjög athyglisvert að þau skiluðu ekki inn umsögn verandi regnhlífafélag stærstu raforkukaupenda landsins. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki enn fengið botn í það. Ég vona að ég fái botn í það einhvern tímann. En það verður spennandi útskýring að heyra að stærstu raforkukaupendur landsins sjái ekki ástæðu til að skila inn umsögn. Samtök eins og þessi skila inn umsögnum um býsna fjölbreytta flóru þingmála: En, nei, ekki stafkrókur um innleiðingu þriðja orkupakkans. Það þótti mér athyglisvert.