149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:26]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Mig langar að halda aðeins áfram þar sem frá var horfið þar sem ég vitnaði í áhugaverða grein í vefmiðlinum Viljinn eftir Hildi Sif Thorarensen verkfræðing þar sem hún fjallar um umframorku í kerfinu, þ.e. raforkukerfinu á Íslandi, að hún sé allt að 10% af því sem Landsvirkjun framleiðir á hverju ári en á sama tíma sé ljóst að virkjunum sé að fjölga á Íslandi og leyfum á stórum sem smáum þegar kemur að virkjunum, þannig að áhuginn er allur að aukast. Hún segir að þær framkvæmdir séu í raun og veru ekki í samræmi við orkuþörfina. Talað er um fyrirtæki eins og Íslenska orkumiðlun, fyrirtæki sem var stofnað af Bjarna Ármannssyni fjárfesti, gerði samninga um raforkuviðskipti upp á 65 megavött í byrjun þessa árs samkvæmt frétt sem birtist í Morgunblaðinu og það eru fleiri fjárfestar sem sýna þessu áhuga. Áhuginn er sem sagt að aukast en á sama tíma er umframorka í kerfinu. Þetta segir okkur að menn ráðast ekki í slíkar fjárfestingar nema þeir sjái einhvern ábata af því og hann er þá væntanlega ekki sá að selja orkuna innan lands þegar nú þegar er umframorka í kerfinu. Þá held ég að alveg sé hægt að setja þetta í samhengi við það að þessir aðilar eru að horfa til sæstrengs.

Þess vegna langar mig að fá það fram hjá hv. þingmanni hvort það sé ekki alveg ljóst að þeir aðilar hafi mikinn hag af því að sæstrengur verði lagður (Forseti hringir.) og þess vegna muni þeir þrýsta á stjórnvöld þegar að því kemur að afnema þennan lagalega fyrirvara um að hér verði ekki lagður sæstrengur.