149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:35]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Mig rámar í að ég hafi við upphaf þessarar lotu í umræðum um þriðja orkupakkann gert að umtalsefni fyrirvarana sem gerðir hafa verið, eða réttara sagt skort á þeim. Þar sem ég var staddur erlendis og fylgdist með þessum umræðum eins og ég gat sló það mig mjög að það skyldi koma upp í miðri þessari umræðu að menn könnuðust allt í einu ekki við að stærsti fyrirvarinn við það mál sem við erum að fara yfir fannst ekki. Síðan hefur komið í ljós að það á að setja hann eftir á í reglugerð. Fyrirvarinn er ekkert fyrir hendi.

Ég drap á það í einhverri ræðu minni hér að fréttaveitan Bloomberg hefði látið það í ljós að bestu fjárfestingartækifæri í hinum vestræna heimi, hvorki meira né minna, væru í raforkukostum á Íslandi. Ég veit ekki hvort ég á að spyrja hv. þingmann hvort þessu fyrirvaraleysi, sem ég vil kalla svo, fylgi hugsanlega andvaraleysi stjórnvalda, hvort það geti verið að þessi skortur á lögformlegum fyrirvörum — ég held að það sé varla hægt að kalla þá fyrirvara sem settir hafa verið, eða boðaðir, lögformlega þannig að þeir haldi.

Spurningin er: Getur verið að þarna sé um að ræða andvaraleysi sem er þá eitt atriði í viðbót sem ætti að fella þetta mál sem við erum núna að fjalla um og að þetta andvaraleysi geti verið undirrótin að því að hér sé þessi umframeftirspurn eftir því að virkja?