149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:38]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið og spurninguna sem í því fólst. Hún er mjög áhugaverð. Þar sem regluverki er ábótavant er jafnan þægilegt að hreyfa sig, þar er ágætisrými til að koma sér fyrir og þar fram eftir götunum. Á Íslandi er t.d. ekki heildstæð orkustefna sem hægt er að kalla, sem gerir það kannski að verkum, eins og hv. þingmaður hefur velt upp, að sú umframeftirspurn, sem við höfum rætt hér í kjölfar ræðu minnar, geti verið komin til af þessu andvaraleysi stjórnvalda, að stjórnvöld geri sér ekki grein fyrir því að hér geti, alla vega til skamms tíma og í fyrirsjáanlegri framtíð, orðið eins konar villta vestrið fyrir fjárfesta, að hér geti hálfgert gullgrafaraæði gripið um sig, hér sé hægt að koma niður fótum hafi menn nægt fjármagn til að gera slíkt og tryggja sér verulega mikla hagsmuni til langrar framtíðar í auðlindum landsins — undirliggjandi er þá vonin um tengingu við markaði vegna þess að fyrirvararnir, sem menn hafa ímyndað sér að sé verið að setja, eða skorturinn á þeim eins og við viljum halda fram, gerir það að verkum að ekkert hindri að svo geti orðið.