149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:53]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og réttmætar og mikilvægar hugleiðingar hjá honum hvað varðar trúverðugleika stjórnmálamanna þegar þeir setja fram svona fullyrðingar. Ég verð að segja að mér þykir ákaflega dapurlegt hvernig stjórnarliðar og þeir sem eru fylgjandi þessu máli hafa trekk í trekk sakað okkur Miðflokksmenn um að fara með rangfærslur. Hér kom hv. þm. Framsóknarflokksins og sagðist aldrei hafa séð aðrar eins rangfærslur í minnihlutaáliti Miðflokksins í utanríkismálanefnd hvað þetta mál varðar.

En hér blasir við svart á hvítu að þingmenn fara með staðlausa stafi þegar kemur að einum mikilvægasta þætti málsins, sem er raforkuverð til almennings í landinu og fyrirtækjanna í landinu. Þetta er það sem veldur mestum áhyggjum hjá fólki, að það að stíga þetta skref áfram inn í þessa markaðsvæðingu komi til með að hækka raforkuverð enn frekar. Sagan segir það, þetta gerðist í orkupakka eitt, það gerðist í orkupakka tvö og öll teikn eru á lofti um að þetta muni einnig eiga sér stað við innleiðingu orkupakka þrjú sem er verið að reyna að keyra í gegn. Ég verð að segja hvað trúverðugleikann varðar að þessir sömu þingmenn hljóta að verða að svara fyrir þetta þegar að því kemur í kosningum, að þeir hafi bara farið með staðlausa stafi í þessum efnum. Þá komum við aftur að því sem varðar stöðu Alþingis gagnvart almenningi, (Forseti hringir.) að ekki er þetta til að bæta hana.