149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:55]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég stalst til að taka útprentun á grein hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur með upp í pontu sem hv. þm. Birgir Þórarinsson hafði meðferðis. Á meðan hv. þingmaður kom hingað í svar las ég í gegnum meginpunkta greinarinnar. Hérna kemur fram alveg makalaus framsetning þar sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir hefur farið mikinn um það hvers lags ógæfufólk það er sem hefur efasemdir um innleiðingu þriðja orkupakkans sem virðist vera rétt um helmingur þjóðarinnar og rúmur meiri hluti fylgismanna þess flokks sem hún er á þingi fyrir. Hún segir um þriðja orkupakkann, með leyfi forseta:

„… heldur eru reglur hans til hagsbóta fyrir Íslendinga vegna aukinnar neytendaverndar og reglna sem stuðla að aukinni samkeppni og jafnræði milli aðila, sem ætti almennt að stuðla að lægra verði.“

Það er engin tilraun einu sinni gerð til að heimfæra þetta til raunheima hvað í þessu regluverki, þessari innleiðingu, ætti almennt að stuðla að lægra verði, eins og segir í greininni. Sem betur fer erum við þó ekki það fjarri raunheimum í umræðunni um málið að þeir eru ekki margir sem ganga svo langt að halda því fram að verð muni lækka vegna innleiðingar þriðja orkupakkans. Ýmsir leyfa sér að fullyrða að verð muni ekki hækka en Samorka tekið af öll tvímæli um það, en að „sem ætti almennt að stuðla að lægra verði“ er alveg ný (Forseti hringir.) nálgun í málinu og setur allt annað sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir segir í greininni í annað og tortryggilegra samhengi.