149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:00]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þau orð sem hann hafði hér áðan og án þess að ég ætli að fara að gera sérstakt veður út af þeirri grein sem vitnað var til er fyrirsögnin á henni mjög fyndin vegna þess að greinin heitir: Vönduð málsmeðferð um þriðja orkupakkann. Síðan er innihaldið eins og það er, þannig að þetta er í sjálfu sér nokkuð fyndið.

Það sem hefur hins vegar valdið mér nokkrum áhyggjum er að fylgjendur orkupakkans virðast almennt ekki upplýstir um hvað hann inniheldur. Ég vil vitna í aðra þingkonu, Silju Dögg Gunnarsdóttur, sem segir að Framsóknarflokkurinn sé ekki einungis með belti og axlabönd heldur með álímdan hártopp og í smekkbuxum og nýjum skóm í þessu máli. Ég ætla að segja eins og Halli og Laddi að mér þætti gaman að sjá það, en svo virðist sem stuðningur þessara hv. þingkvenna og fleiri fylgjenda þessa orkupakka — ég nefni t.d. að hv. þm. Þorsteinn Víglundsson hefur farið hér mikinn um að það sé rangt að orkuverð hafi hækkað, þvert á móti hafi það lækkað. Á móti kemur svo Landssamband bakarameistara og heldur hinu gagnstæða fram og það eru menn sem nota gríðarlega mikið af rafmagni. Ég ætla því aðeins að fara yfir það með hv. þingmanni hvort hann sé ekki frekar áhyggjufullur út af því að þessi mikli stuðningur sem málið hefur hér innan þings, að því er virðist, sé reistur á upplýsingum sem séu ekki réttar eða upplýsingum sem menn hafa kannski ekki alveg skilið kórrétt. Það út af fyrir sig í svona stóru máli er mjög (Forseti hringir.) áhyggjuvekjandi og kemur aftur að því sem við höfum verið að ræða hér nokkuð í þessari umræðu, að rétt sé að geyma málið og gaumgæfa og kynna það betur. (Forseti hringir.) Samkvæmt þessu þarf líka að kynna það betur fyrir þingmönnum minni hlutans, eða hvað?