149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:07]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég er alveg hjartanlega sammála honum í þessu, það þarf að kynna þetta mál miklu betur og eyða þeim rangfærslum sem hafa verið settar fram og horfa síðan í baksýnisspegilinn og sjá hvaða afleiðingar orkupakki eitt og tvö höfðu á sínum tíma og menn viðurkenni þær staðreyndir en séu ekki að snúa út úr því. Ég hjó sérstaklega eftir því að í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld var viðtal við hv. þingmann og formann utanríkismálanefndar, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, þar sem hún segir að Miðflokkurinn sé hér í málþófi, það sé farið illa með tíma almennings og búið sé að svara öllum spurningum. Þetta er bara rangt hjá hv. þingmanni, það er ekki búið að svara öllum spurningum. Það er ekki búið að svara þeirri spurningu hvers vegna þingmenn stjórnarliðanna koma hér með rangfærslur varðandi hækkun á raforkuverði á orkupakka eitt og tvö og hvers vegna þeir geta sett fram þá fullyrðingu að rafmagn til neytenda, heimila og fyrirtækja í landinu, komi ekki til með að hækka við orkupakka þrjú sem við erum að fara að innleiða núna. Það er bara ábyrgðarhlutur, herra forseti, að þingmenn geti gengið fram fyrir skjöldu með þessum hætti fyrir framan alþjóð í sjónvarpsfréttum og haldið því fram að hér sé búið að svara öllu og að þeir sem séu á móti þessu séu með rangfærslur og fari með staðlausa stafi í þeim efnum. Þetta er ábyrgðarhlutur og ég ætla að vona, eins og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson sagði, að kjósendur þessa fólks, þessara þingmanna, og grasrót þeirra (Forseti hringir.) sjái til þess að svona hlutir verði ekki viðhafðir.