149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:15]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir ræðuna og þessa þörfu upprifjun á þessu viðtali sem var einmitt mjög merkilegt. Þarna er málið einmitt svolítið að kristallast, að það er verið að reyna að nota álit fræðimanna og okkar bestu sérfræðinga í pólitík. Auðvitað er beðið um álit en þeir hafa gefið það alveg skýrt út að þeir séu ekki að leggja eitt eða neitt til, þeir séu hins vegar að benda á hvað sé fært, hvað sé ófært og hvað felist í hverju, en skilja það svo eftir hjá viðkomandi stjórnmálamönnum að taka ákvarðanir út frá sinni sannfæringu. Það er búið að fara nokkuð vandlega yfir það hér að verið er að innleiða þessar tilteknu reglugerðir inn í íslenskan rétt á hefðbundinn hátt. Ég mun í næstu ræðu minni fara nánar í þetta fyrirvaraleysi stjórnvalda. Það er orðið alveg morgunljóst að það heldur ekki nokkru vatni þannig að við munum innleiða þetta í íslenskan rétt. Þeir hafa komist að þeirri niðurstöðu í sinni álitsgerð að verði 8. gr. reglugerðar 713/2009 tekin upp í EES-samninginn og innleidd í íslenskan rétt, þ.e. í óbreyttri mynd án þess að senda hana aftur til EES-nefndarinnar og breyta henni, mun það fela í sér valdframsal til ESA sem ella væri á hendi íslenskra stjórnvalda.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann (Forseti hringir.) hvort hann sé þeirrar skoðunar að hér sé þá um valdframsal að ræða og kannski bara vinnubrögð sem eru óboðleg.