149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:24]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir ræðuna. Það er enn talað um álitsgerð fræðimannanna Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts. Skotið var að mér lítilli dæmisögu fyrr í dag og auðvitað er hún útúrsnúningur að svolitlu leyti en samt ekki alveg. Fyrir ekki löngu síðan stóðu Vestmannaeyingar í mikilli baráttu um að gerð yrðu jarðgöng til Vestmannaeyja. Sá sem hér stendur þekkir málið dálítið, hann var aðstoðarmaður samgönguráðherra á þeim tíma sem þessi slagur Eyjamanna stóð sem hæst, og fremstur í flokki fór Árni Johnsen, fyrrverandi þingmaður. Ímyndum okkur það dæmi að á meðan á öllu þessu stóð hefðu verið sett lög þess eðlis að Danir, segjum bara danskir dómstólar, hefðu með málefni sem upp kæmu í jarðgöngunum að gera og færu með dómsvald í þeim en aðeins eftir að göngin hefðu verið grafin. Lögin voru sett og taka gildi og virkni um leið og göngin hafa verið grafin.

Hvað segir hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, heldur þingmaðurinn að lagasetning sem þessi hefði staðist stjórnarskrá?