149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:26]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Sá sem hér stendur hefur gaman af nettum útúrsnúningum og beitir þeim gjarnan en stutta svarið við þessari spurningu er: Nei. Við framseljum ekki yfirráð yfir nauðsynlegum grunnstoðum landsins til erlendra dómstóla eða yfirþjóðlegs valds. Við gerum það ekki, en það er það sem lagt er til í þessu máli eins og það er umbúið. Það er kannski stóri slagurinn í málinu, þ.e. akkúrat þetta. Síðan, eins og fram hefur komið í ræðum okkar síðustu dægrin sérstaklega, eftir það sem fyrir lá í upphafi er málið samt sem áður að dýpka og er að breytast aðeins. Sú niðurstaða sem við gengum út frá í byrjun, þ.e. við sem erum á móti og þeir sem styðja málið sögðu að væri vitleysa — það er svo margt sem hefur komið fram núna sem fylgifiskur og fylgifiskar í málinu sem enn byggir undir þá niðurstöðu sem við gengum út frá, þ.e. að hér væri um að ræða valdframsal af óþekktri stærð og að hér væri um að ræða stjórnarskrárlega óvissu. Hvorugum þessara þátta hefur verið hnikað í málinu, heldur hafa þvert á móti komið fram upplýsingar héðan og hvaðan sem púslast upp sem benda til þess að málið er einmitt svona vaxið. Þess vegna höfum við verið að tala um að það sé bara ekki hægt, það er ósæmilegt og óhæfa, að keyra svona mál í gegn (Forseti hringir.) sem hefur þessi eftirköst, eða því fylgi þetta, í blóra við vilja meiri hluta þjóðarinnar. Það er það versta.