149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:29]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni svarið. Því er m.a. haldið fram að það sé bara verið að fresta hinu stjórnskipulega vandamáli með því að innleiðingarreglugerð verði sett núna sem innleiði reglugerðir nr. 713/2009 og 714/2009 eins og þær liggja fyrir að fullu með hefðbundnum hætti en að síðan verði hinu stjórnskipulega álitaefni frestað fram að þeim tíma er rafmagnsstrengur, sæstrengur, verður lagður frá Íslandi til annars lands til flutnings raforku. Hvert er sjónarmið þingmannsins hvað það varðar að menn fresti vandamálinu, ef svo má segja, með þessum hætti? Þetta slær mig með svipuðum hætti og þegar það þótti mikill sigur í svokölluðu Icesave 1, fyrsta samningnum, að hafa fengið greiðsluskjól í sjö ár þó að menn sæju fram á bráðan bana á áttunda ári miðað við hvernig þeim málum var stillt upp. Mér finnst svipaður keimur af þessu máli, þarna á að fresta þessu stjórnskipulega vandamáli allt til þess að geta klárað innleiðinguna á gerðinni með hefðbundnum hætti í ljósi þessara loftkenndu meintu fyrirvara.