149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:31]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur aldrei þótt mikill kostur að ýta vanda á undan sér. Það hefur aldrei þótt góður kostur að vera haldinn ákvörðunartökufælni. Og það hefur aldrei þótt góður kostur að vera ekki fær um að horfast í augu við vandamál sem er fyrir hendi. Það er einmitt kannski allt þetta þrennt sem við höfum verið að benda á hér. Lausnin er til, það þarf bara kjark til að beita henni. Lausnin er í EES-samningnum sem menn trúa svo mikið á en þeir sem eiga þann draum stærstan að komast í kaldan faðm Evrópusambandsins virðast ekki heldur treysta þessum samningi. Það er það sem mér finnst svo undarlegt.

Ég efast ekkert um þennan samning, hann er búinn að reynast okkur Íslendingum mjög vel í 25 ár. Það er enginn vilji til þess að fara að offra honum eða fórna á einhvern hátt eða rýra gildi hans eða neitt slíkt. En auðvitað verða menn að treysta á samninginn og menn verða að treysta á að mótaðilinn — þetta er gagnkvæmur samningur, þetta er samningur milli tveggja aðila og annar aðilinn er ekkert rétthærri en hinn. Ef menn treysta ekki á þetta, ef menn treysta ekki á þann samning sem menn hafa haft í höndum í 25 ár og hefur virkað, takk, bærilega þó að það séu náttúrlega áhöld um það hvað við séum búin að gusa hér inn af alls konar dóti sem við hefðum kannski ekki þurft að gera, en allt í lagi, látum svo liggja á milli hluta. En að menn skuli ekki treysta á þessa lausn sem er til, bara af því að einhverjir gaurar hafa komið hér og sagt: Ja, Evrópusambandið fer hugsanlega í fýlu. Olræt, eru líkindi á því að Evrópusambandið (Forseti hringir.) eða nágrannar okkar á EES-svæðinu vilji segja upp þessum samningi hvað okkur varðar sem hafa af þessu drjúgan hag? (Forseti hringir.) Ég held svei mér ekki.