149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:44]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir svarið. Ég held að ég sé ekki einn um að hafa skilið efnislegt innihald þessara orða hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur sem svo að hún væri þarna að slá á létta strengi, þetta væri sú tegund af kímnigáfu sem oft hefur verið kölluð kaldhæðni, vegna þess að hún hefur flutt mál sitt á þann hátt að hér eigi að innleiða þriðja orkupakkann með fyrirvörum, einmitt til að koma í veg fyrir að við tengjumst innri markaði Evrópska orkunetsins, til að koma í veg fyrir að við lendum í því að orkan verði seld þangað sem myndi hafa í för með sér hækkandi raforkuverð.

Er það gagnkvæmur skilningur hv. þingmanns að (Forseti hringir.) í sölum Alþingis og í blaðagreinum og viðtölum sé verið að segja brandara meira en nokkuð annað?