149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:47]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna, prýðisgóða ræðu, sem kemur einmitt inn á mikilvægi þess að hv. þingmenn setji ekki fram einhverjar fullyrðingar sem fá ekki staðist. Það á sérstaklega við um hv. þingmann sem við nefndum hér, Bryndísi Haraldsdóttur, og ég sakna þess, herra forseti, ég hef óskað eftir því að hún kæmi hingað og ræddi þetta við okkur en við því hefur ekki verið orðið. Það kemur sérstaklega fram í grein hennar sem ég vitnaði í áðan þar sem hún segir að það sé mikil neytendavernd í þessum orkupakka, og fleiri þingmenn hafa haldið því fram. Hv. þm. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hefur haldið því statt og stöðugt fram og auk þess hefur hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, einnig haldið þessu fram. Þá leggja þær áherslu á að kaupandi geti skipt um orkusala.

Það er athyglisvert að skoða skýrslu sem verkfræðistofan EFLA gerði. Í þeirri skýrslu kemur fram að það eru tiltölulega mjög fá heimili sem skipta um orkusala eða söluaðila. Árið 2017 voru það 370 heimili sem skiptu um söluaðila, en í landinu eru 140.000 heimili. (Gripið fram í: 370?) 370 á móti 140.000. Hér er staðhæfing sem þingmenn halda fram um að þetta sé svo mikil réttarvernd og mikil neytendavernd o.s.frv., en svo er ekkert hægt að nota þetta vegna þess að munurinn er sáralítill. Það er enginn að skipta um orkusala. Við höfum það bara svart á hvítu. Það borgar sig að gera skýrslu um þetta.

Mig langar að heyra frá hv. þingmanni hvað þetta varðar, að þingmenn skuli setja fram svona staðhæfingar (Forseti hringir.) sem eiga ekkert heima í þessari umræðu.