149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:02]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Hæstv. forseti. Þessi ræða mín er framhald af síðustu ræðu þar sem ég byrjaði að fara yfir það sem ég kallaði fyrirvaraleysi Alþingis. Ég endaði síðustu ræðu mína á því að fara yfir þær leiðir sem stjórnvöld hyggjast fara með atbeina Alþingis til að koma þessum fyrirvörum fyrir í lögum um raforku.

Hvað felst í þessari lagasetningaraðferð? Það er verið að setja raforkulög, þau hin sömu og mælt er fyrir um í þingsályktunartillögu á fjögurra ára fresti, um stefnu um uppbyggingu flutningskerfis landsins og með þessari tilteknu stefnu stjórnvalda skal með þingsályktun sérstaklega kveðið á um hvort sæstrengur er lagður eða ekki. Með einföldun má því segja að þessi nýja 6. mgr. 9. gr. raforkulaga endurtaki það sem nú þegar er í 39. gr. a sömu laga. Hún gerir það eitt að undirstrika kannski enn frekar að ákvörðunin um sæstreng á Íslandi fari eftir þingsályktun Alþingis um stefnu um uppbyggingu flutningskerfis sem sett er á fjögurra ára fresti. Þá mætti færa rök fyrir því að þessi lagabreyting hér sé í raun og veru óþörf sökum innihaldsleysis.

Þessi ræða mín hér og sú fyrri eru að uppistöðu til minnihlutaálit atvinnuveganefndar er varðar þau lög sem verða til umfjöllunar hér. Ef markmiðið er að tryggja Alþingi og löggjafarvaldi þess úrslitavald varðandi ákvörðun um hvort tengja eigi íslenska raforkukerfið við raforkukerfi annarra landa er lágmark að fara fram á það að setja efni þingsályktunartillögunnar í lög og tryggja um leið að með því að báðir aðilar löggjafarvaldsins, þ.e. Alþingi og forseti Íslands, komi að þeirri ákvörðun, sérstaklega þar sem nú á að hafa almannahagsmuni að leiðarljósi, eins og segir í lögskýringargögnunum.

Það sem er kannski alvarlegast í þessu er að það er erfitt að sjá að samkvæmt EES-samningnum sé unnt eða heimilt, eins og ég hef farið yfir í fyrri ræðum mínum, að innleiða reglugerð eða tilskipun í landsrétt með fyrirvörum. Ég hef farið nokkuð ítarlega yfir það í fyrri ræðum mínum um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið að það gengur trauðlega upp. Það er beinlínis gengið út frá því að það sé ekki gert heldur séu innleiðingar gerðar á þann hátt að það sé búið að leita sátta í sameiginlegu EES-nefndinni.

Í framhaldi af því ber að geta þess að það sem íslensk stjórnvöld áforma í þessu er að innleiða þriðja orkupakkann en setja svo í þingsályktun fyrirvara um úrslitavald Alþingis vegna sæstrengsins. Í því samhengi er ekki hægt að horfa öðruvísi á það en að Ísland baki sér þjóðréttarlega skuldbindingu til að innleiða reglugerð, m.a. 713/2009 með þeim undirgreinum sem þar eru og hafa margsinnis verið tíundaðar hér, í landsrétt enda er ætlunin í þessu að innleiða pakkann í samræmi við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, samanber 7. gr. samningsins.

Þá komum við að því að einna helst virðast tvær leiðir færar ef ætlun stjórnvalda og löggjafans er að tryggja hagsmuni Íslands með því að forðast stjórnarskrárbrot og yfirþjóðlegt vald, annaðhvort að sleppa innleiðingunni á þessum téðu reglugerðum með það að leiðarljósi að tryggja þá að hið yfirþjóðlega vald, ACER, nái ekki til Íslands og (Forseti hringir.) taka þá úr sambandi tengingarnar við tilskipun 72/2009 við reglugerð 713/2009 og 714/2009 eða í annan stað að hafna innleiðingu þriðja orkupakkans.