149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:08]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum talað nokkuð í þessari umræðu um þá fyrirvaraleið eða þann skort á fyrirvörum sem er í þessu máli. Mig langar til að biðja hv. þingmann að fara aðeins yfir það með mér hvaða ástæðu hann telji fyrir því að ríkisstjórnin sem ber þetta mál fram vill ekki eða þorir ekki eða kærir sig ekki um að fara auðveldustu leiðina til að fá fram lögformlega fyrirvara, þ.e. að fara með þetta mál til sameiginlegu EES-nefndarinnar og fá þar fyrirvara frá ESB sem virkar, fyrirvara sem er ótvíræður og óumdeildur. Hefur hv. þingmaður skýringu á reiðum höndum um hvers vegna stjórnvöld hafa ekki gert þetta? Fyrirvari sem á eftir að setja í reglugerð, fyrirvari sem er settur með almennum orðum í greinargerð, fyrirvari sem byggist á því að tveir ágætir menn annaðhvort hittust yfir samloku og sódavatni eða kaffibolla og vínarbrauði eða töluðu saman í síma og deildu skilningi á einhverju ákveðnu málefni getur varla talist lögformlegur fyrirvari.

Þess vegna ítreka ég þá spurningu til hv. þingmanns hverja hann telur ástæðuna eða ástæðurnar fyrir því að ríkisstjórnarflokkarnir vilja ekki fara þá leið sem er einboðin í þessu máli, þ.e. að vísa málinu aftur til sameiginlegu nefndarinnar og fá þaðan alvörufyrirvara.