149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:12]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst einhvern veginn að í þessum orðum hv. þingmanns kristallist nokkuð það sem fram kom í álitsgerð nokkurra lögspekinga, að þessari aðferð, þ.e. þessari vegferð hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar, fylgdi lagaleg óvissa. Við höfum rætt þetta hugtak nokkuð hér í þessum umræðum og þess vegna verð ég líka að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist ekki ónotaleg tilfinning eða jafnvel óþolandi að það skuli eiga að samþykkja þetta mál á þinginu þegar menn vita að þessari afgreiðslu fylgir lagaleg eða lögfræðileg óvissa. Spurningin hlýtur að vera: Hvað er það sem rekur menn í þessa óvissuferð með hagsmuni landsins og þjóðarinnar í farteskinu? Hvers vegna leggja menn upp í óvissuferð með fjöreggið? Hvað rekur menn til þess? Hvaða nauðsyn er til þess? Hvað liggur á að gera það? Hvers vegna ætti að gera það?

Þetta eru nokkrar spurningar sem ég vildi kasta í átt að hv. þingmanni. Eins og fram hefur komið í umræðum okkar þau dægur sem við höfum verið hér virðast fæðast á þessu máli nýir fletir á hverjum degi. Það virðast koma fram nýjar upplýsingar eftir því sem meira er kafað ofan í málið sem gerir (Forseti hringir.) enn nauðsynlegra að tekinn sé tími í að afgreiða þetta mál með einhverjum hætti.