149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:17]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna sem var mjög góð og upplýsandi. Það er alveg ljóst að hv. þingmaður hefur sett sig vel inn í þetta mál, sérstaklega hvað varðar afsal á forræði sem er grundvallarspurning í allri þessari umræðu.

Það var áhugavert að fylgjast með Kastljóssþætti þar sem formaður utanríkismálanefndar var að ræða valdaframsalið. Í því sambandi er áhugavert að líta á álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar sem hefur oft verið nefnt hér, en þar segir, með leyfi forseta:

„Með hliðsjón af framansögðu er torvelt að líta svo á að framsal ríkisvalds samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009 sé vel afmarkað og skilgreint. Virðist fremur verða að líta svo á að valdheimildir ESA samkvæmt 8. gr. reglugerðarinnar yrðu óljósar og háðar túlkun á þeim hugtökum sem að framan greinir.“

Þá vil ég spyrja hv. þingmann: Er það ekki alvarlegur hlutur ef maður hefur óskeikult vald og getur ekki séð fyrir hvar það endar? Það er óskýrt og óskilgreint, ómögulegt að sjá hvar það endar. Hv. þingmaður er vel að sér í þessu þannig að ég spyr: Er þetta ekki (Forseti hringir.) verulegt áhyggjuefni, hv. þingmaður?