149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:24]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir andsvarið. Talið hefur borist að hræðsluáróðri. Hér hefur verið valin verri leiðin á þeim forsendum að sú sem er lögfræðilega einföld og fyrirsjáanleg valdi pólitísku uppnámi. Þau orð hafa verið látin falla í ræðustól að við verðum ekki tekin neinum vettlingatökum af hálfu Evrópusambandsins ef við kjósum að fara þá leið sem er augljóslega best við lestur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Það er gegnumgangandi taktur eða þema í gegnum allan samninginn að leita sátta. Allt miðar að því að ef upp koma einhver álitaefni eða eitthvað sem getur orðið til þess að það steyti á milli aðildarríkja EES eða milli Evrópska efnahagssvæðisins og Evrópusambandsins sé allt gert til þess og allra ráða leitað til að ná sáttum. Engin ákvæði eru um að þá skuli beita refsiaðgerðum, að þess megi vænta að menn verði gerðir brottrækir úr þessu samstarfi, njóti minni réttinda innan þess eða nokkurn skapaðan hlut, enda hef ég kallað eftir því við stjórnarliða sem hafa haldið þessu fram, þar á meðal hv. þingmann, (Forseti hringir.) formann utanríkismálanefndar, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, að upplýsa um það í hverju þessi pólitíska upplausn ætti að felast.