149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:32]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir ræðuna. Það er auðvitað ágætt að þingmaðurinn sé bjartsýnn og telji að hagsmunir Íslands verði í öðru sæti í þessum samanburði öllum. En það gætu einhver sjónarmið komið inn til viðbótar á milli hagsmuna Evrópusambandsins og okkar þannig að við gætum lekið eitthvað aðeins niður listann.

Það sem vakti athygli mína í ræðu þingmannsins og mig langar til að koma inn á eru þessar vangaveltur um aðgang að hreinni orku og mikilvægi hennar til frambúðar, þeirrar endurnýjanlegu orku sem við eigum svo mikið af á Íslandi. Það hefur verið orðað þannig að við séum í einhvers lags æfingabúðum hvað það varðar að upplifa að við séum að nýta kjarnorku og kol til ýmissa verkefna sem kalla á raforku í tengslum við það sem stundum er kallað aflátsbréf, sem sagt upprunavottorð, sem raforkuframleiðendur geta selt frá sér til meira mengandi raforkuframleiðenda erlendis.

Telur hv. þm. Birgir Þórarinsson að það sé einhver fótur fyrir því að lýsa þessu sambandi, þessu verkefni sem, eins og ég segi, hefur stundum verið lýst sem æfingabúðum í því að aðlaga sig því að nota orku sem er meira mengandi en það sem við erum raunverulega að nota? Þetta slær marga undarlega. Heldur þingmaðurinn að þetta sé raunsönn lýsing á því sem fram undan er á þessum sameiginlega Evrópumarkaði þegar menn eru farnir að kaupa orkuna úr potti þar sem kjarnorka, kol og (Forseti hringir.) græn orka eru saman í einum graut?