149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og einmitt greiningu hans á þessu sem er mjög athyglisverð. Ég held að Evrópusambandið viti nákvæmlega hvað það er að gera í þessum efnum. Þeir þurfa að komast yfir hreina orku. Við sjáum fram á orkuskipti vegna loftslagsbreytinganna og þeirrar alvarlegu stöðu sem er í þeim málaflokki, og þá reyna ríki og ríkjasamband eins og Evrópusambandið að tryggja sig til framtíðar þannig að þau geti brugðist við þeirri vá. Það felst í því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Þar sem slík notkun hefur afgerandi áhrif á loftslagsmálin, mengunarkvóta o.s.frv., eins og hv. þingmaður nefndi réttilega í því sambandi, þá er horft til Íslands.

Ég hef nefnt hér að búið er að teikna það upp að héðan verði lagður sæstrengur. Það eru til kort þess efnis. Búið er að vinna mikla undirbúningsvinnu. Íslensk stjórnvöld hafa unnið mikla undirbúningsvinnu og bæði innlend og erlend fyrirtæki hafa komið að því verkefni. Við sjáum að búið er að teikna upp streng frá Íslandi til Bretlands og svo á meginland Evrópu. Þetta er allt stimplað í Brussel og að sjálfsögðu gert með samþykki íslenskra stjórnvalda, sem sýnir það að horft er til okkar með þessa hreinu orku. Hún er og verður verðmætasta orkan til framtíðar.

Þess vegna eru einmitt þessir aðilar, fjárfestar, að huga að orkuframleiðslu á Íslandi, vindorkugörðum o.s.frv. Þeir vita að í þessu felast verðmætin. Þess vegna er það þeim mjög mikilvægt að sá möguleiki verði ekki stoppaður að hingað verði lagður sæstrengur.