149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:37]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir svarið. Hann kom jafnframt inn á í svari sínu atriði sem snýr að uppbyggingu, eða sem sagt iðnfyrirtækjum, ég skildi hann þannig að það væru fyrst og fremst iðnfyrirtæki sem hann hefði í huga. Mig langar að heyra frá hv. þingmanni hvort hann hafi áhyggjur af því að á t.d. því svæði sem hann þekkir best til, á Reykjanesi, hvort þar væri ástæða til að hafa áhyggjur. Nú er að hluta til, eftir minni bestu þekkingu þar á, afhendingaröryggi eða flutningskerfi þar á nippinu hvað varðar að afhenda þá orku sem kallað er eftir og auðvitað uppi áform um að bæta þar í og bæta þar úr.

Hefur hv. þingmaður áhyggjur af því að fyrirtæki á hans heimasvæði gætu fundið sig í vandræðum verði því samkeppnisforskoti, sem hagstæða orkuverðið er og hefur verið um langa hríð, kippt af fyrirtækjum, hafandi í huga að það eru margir þættir í rekstri fyrirtækja á Íslandi sem eru fyrirtækjum í raun óhagstæð; há skattheimta, fjarlægð frá erlendum mörkuðum, dýr aðföng, sem sagt innflutningur á hráefnum og þar fram eftir götunum? Hefur hv. þingmaður áhyggjur af því að verði þetta samkeppnisforskot tekið af fyrirtækjum á heimasvæði þingmannsins, að það gæti haft alvarleg áhrif á einhver fyrirtæki?