149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:39]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Tvímælalaust er það áhyggjuefni hvaða áhrif þetta kæmi til með að hafa á rekstur fyrirtækja í framtíðinni. Við þurfum ekki annað en að horfa til Noregs í þeim efnum, að þar segir og kemur fram í norskri skýrslu um þetta að iðnaður á náttúrlega mjög mikið undir því að hafa hagstætt orkuverð, eins og t.d. bara pappírsiðnaður og málmiðnaður. Þeir hafa áhyggjur af því að það geti allt að 12.000 störf í Noregi tapast á landsbyggðinni vegna þessa og hliðaráhrifin séu allt að 30.000 störf til viðbótar, þannig að þetta sameiginlega orkukerfi Evrópu sé því veruleg ógn við atvinnulífið í Noregi. Væntanlega erum við að horfa upp á sömu stöðu á Íslandi hvað þetta varðar, að þessi samkeppni um orkuna geti riðið þessum fyrirtækjum að fullu, að þau ráði ekki við það orkuverð sem þeim býðst vegna þess að aðrir bjóði betur fyrir orkuna og þá verði hún seld úr landi sem er náttúrlega mikið áhyggjuefni.

Þeir fjárfestar sem hafa mikinn áhuga á að fara hér í orkuvinnslu eru náttúrlega fyrst og fremst að hugsa um að hámarka sinn hagnað og arðgreiðslur. Menn fara ekki í þessa hluti út af einhverri góðgerðarstarfsemi þegar kemur að atvinnumálum á landsbyggðinni. Ég held að það sé alveg ljóst. Ég held líka að við þurfum að hafa í huga störf á landsbyggðinni t.d. í áliðnaðinum, á Austfjörðum sem dæmi, að þegar samningar renna út, raforkusamningar, við það fyrirtæki, hvaða tryggingu höfum við fyrir því að það fyrirtæki (Forseti hringir.) hætti ekki starfsemi þegar það fær ekki (Forseti hringir.) það orkuverð sem það telur fýsilegt? (Forseti hringir.) Það er því margt að varast í þessum efnum og mörg álitaefni.