149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:42]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst þetta mjög áhugaverð ræða hjá hv. þingmanni. Ég þakka kærlega fyrir hana. Þetta er svona ræða sem við höfum rætt stundum hér í salnum: Og hvað svo? Eða þá hvað næst? Og víst er það að við höfum vítin til að varast vegna þess að svo virðist vera í Noregi, þar sem meiri samkeppni er um orkuna og verðið hefur hækkað, að félag iðnrekenda þar hefur kvartað mjög mikið og borið sig illa undan vaxandi kostnaði við raforkuverð. Mér finnst að menn hafi ekki lagt nógu mikla áherslu eða alúð við þetta atriði við undirbúning málsins, þ.e. menn hafa sagt, eins og fram hefur komið í makalausri grein í Morgunblaðinu, að þessi samningur muni lækka orkuverð, sem ég tel persónulega að sé ekki nokkur einasti möguleiki á. Og þá miðar maður ekki síst við þá reynslu sem við þegar höfum af því að hafa innleitt tvo orkupakka áður. Þess vegna hlýtur maður að spyrja í fyrsta lagi: Hefur verið lögð nóg vinna í það að gaumgæfa þau áhrif sem innleiðing þessa orkupakka mun hafa, í fyrsta lagi fyrir heimilin í landinu, í öðru lagi fyrir lítil iðnfyrirtæki og í þriðja lagi fyrir orkufreka starfsemi, eins og t.d. starfsemi garðyrkjubænda? Hefur að mati þingmannsins verið lögð nóg vinna í þetta, þ.e. að reyna að gera sér í hugarlund þau áhrif sem þessi innleiðing mun hafa? Ég vil fá að vita hvað þingmanninum finnst um það.