149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:44]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Mjög mikilvæg hugleiðing hjá honum og áhyggjur sem koma fram í andsvari hans. Svo virðist vera hjá okkur Íslendingum, a.m.k. hjá stjórnvöldum, að það er eiginlega vaðið áfram, fyrirhyggju vantar að kanna nákvæmlega áhrif stjórnvaldsaðgerða og í þessu tilfelli innleiðinga. Við þekkjum það frá kjötmálinu svokallaða. Það fór nánast engin greining fram þegar við komum sérstaklega að tollasamningnum við Evrópusambandið um landbúnaðarvörur. Það fór engin greining fram af hálfu stjórnvalda hvaða áhrif sá samningur gæti haft á íslenskan landbúnað, sem hann hefur, mjög víðtæk. En það hlýtur að vera gerð sú lágmarkskrafa gagnvart stjórnvöldum að gerð sé ítarleg greining á áhrifum á atvinnugreinar eins og landbúnaðinn. Sama á nákvæmlega við um þetta mál.

Auðvitað á það að liggja nákvæmlega fyrir hvaða áhrif þessi orkupakki hefur á heimilin í landinu, fyrirtækin og matvælaframleiðendur, eins og garðyrkjuna og fyrirtæki sem eru háð orku. Þetta á allt að fara fyrir nefndina. Það er ekki nóg að fá einhver hagsmunasamtök á einn fund sem stendur yfir í hálftíma í nefndinni og láta það duga. Það þarf að gera (Forseti hringir.) kerfisbundnar rannsóknir á því hvaða áhrif þetta getur haft.

Þessar athugasemdir hv. þingmanns eru mjög réttmætar í þessum efnum.