149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:49]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég held að það sé alveg tvímælalaust rétt hjá honum að full ástæða er til að fresta málinu hið minnsta fram á haustið og reyna að koma öllum þeim upplýsingum að sem eru nauðsynlegar.

Hv. þm. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að búið væri að svara öllum spurningum, öllum spurningum hafi verið svarað fyrir nefndinni og í nefndarvinnunni og hér væru Miðflokksmenn bara að tefja umræður. Þetta eru náttúrlega alveg makalaus rök, herra forseti, að setja þetta fram með þeim hætti vegna þess að fjölmörgum spurningum er ósvarað.

Eins og hv. þingmaður nefndi réttilega, auðvitað hefur verkalýðshreyfingin áhyggjur af þessu máli. Hún hefur lýst því yfir í sérstakri umsögn að hún hafi miklar áhyggjur af málinu. Þetta varðar hag heimilanna og verkalýðshreyfingin ber hag heimilanna fyrir brjósti. Þetta gæti haft áhrif á kjarasamninga ef sýnt þykir að raforka muni hækka umtalsvert, sem hún mun gera þegar sæstrengur verður lagður. En það þarf ekki einu sinni til vegna þess að orkupakkinn leggur það til og gerir að verkum að hækka þarf eftirlitsgjald á orkuframleiðendur um ein 45% og því hefur verið lýst því yfir. Það kemur fram í umsögnum fyrirtækja komu fyrir nefndina, að það muni fara beint út í verðlagið. Það er ekkert verið að fela það fyrir almenningi. Það stendur svart á hvítu í umsögnum að þessar hækkanir muni fara beint út í verðlagið og hækka vísitölu á lánum heimilanna o.s.frv. Það er fullkomlega rétt hjá hv. þingmanni að það verður að staldra við. (Forseti hringir.) Það verður að fara með málið með þeim hætti að allar upplýsingar liggi fyrir.