149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:59]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Jú, hv. þingmaður, það er þannig, ekki síst vegna þess að það kom fram hér fyrr í kvöld að 63% þeirra sem afstöðu taka til þessa orkupakka eru á móti honum. Ég held ég muni það rétt að fram hafi komið hjá, ég held hv. formanni utanríkismálanefndar, það verður þá bara leiðrétt við mig, sú staðhæfing eða skoðun að eftir því sem menn hafi kynnt sér þennan pakka meira, þeim mun betur lítist þeim á hann. Mig minnir að ég hafi heyrt eitthvað slíkt.

Þá hlýtur maður að spyrja: Er þá ekki akkur fyrir stjórnvöld og stjórnmálamenn að kynna þetta mál vel fyrir almenningi til að fá þá jákvæðari sýn almennings, jákvæðri afstöðu til málsins, ef það er þannig að þeir sem vita meira um málið en aðrir séu jákvæðari gagnvart málinu? Og þegar maður heyrir líka eitthvað svona, að þeir sem hafi kynnt sér málið vel lítist betur á það. En þá snýr maður málinu við og segir: Bíddu, og hverjum er um að kenna ef fólk veit lítið um málið?

Ekki er hægt að ætlast til þess þó að það sé náttúrlega mikið upplýsingagildi og jafnvel skemmtigildi á köflum í því fólgið að fylgjast með umræðu eins og hér hefur staðið í nokkur dægur. En það er alveg næsta víst að þeir sem hafa fylgst með henni hafa öðlast meiri þekkingu á málinu. Þetta segi ég í mikilli einlægni vegna þess að við höfum náttúrlega sjálf verið er að kynnast málinu betur með því að fara vel yfir það hér í salnum. Og hvers vegna í ósköpunum leggja menn ekki á það áherslu að kynna málið með nokkrum sóma fyrir almenningi?