149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:04]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja, hv. þingmaður, að ég leyfi mér að efast um það og þetta segi ég líka vegna þess að komið hefur í ljós, eða við höfum haldið því fram í þessari umræðu gagnstætt því sem ýmsir aðrir hafa haldið fram, þá segjum við: Þetta mál er flókið. Það er flókið að taka afstöðu til málsins. Það sýnir sig kannski best í því að þeir lögspekingar á Íslandi sem mest eiga að vita um mál af þessum toga eru ekki sammála. Þeir eru ekki á einu máli um hvernig þetta mál er vaxið. Þeir eru ekki á einu máli um áhrif þess. Þeir eru ekki á einu máli um stjórnskipuleg áhrif o.s.frv. Og þá segir maður: Ef það er svo að fremstu sérfræðingar þjóðarinnar eru ekki á einu máli, hvað þá? Stjórnmálamenn eru augljóslega ekki á einu máli og halda fram mjög andstæðum rökum, það eru að vísu ekki mjög mörg rök sem hafa komið úr ranni þeirra sem aðhyllast þennan pakka, heldur hefur orðræðan verið mest um þá sem ræða á móti þeim, ekki sem sagt um málið sjálft. En engu að síður er uppi mikill ágreiningur í pólitískum flokkum.

Síðan vitum við samkvæmt upplýsingum sem okkur hafa borist — við vitum náttúrlega um þá kynningu sem var kynnt hér í kvöld, við vitum að í nánast öllum stjórnmálaflokkum, líka samfylkingarflokkunum, er andstaða meiri en jákvæðni gagnvart þessum pakka, og þá komum við enn að spurningunni: Hvers vegna eru stjórnvöld að troða þessu í gegnum Alþingi á methraða, í flaustri og í andstöðu við þjóðina? Ef þetta væri markaðsherferð væri hún það misheppnaðasta sem maður hefði nokkurn tíma séð. Ekki satt?