149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:06]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir ræðuna. Það er auðvitað áhugavert að sjá og upplifa að þó að hæstv. utanríkisráðherra hafi vissulega átt fundi með kommissar orkumála hjá Evrópusambandinu og í kjölfarið birt frétt á heimasíðu utanríkisráðuneytisins um meintan sameiginlegan skilning sem átti að vera einn af fyrirvörunum sem voru kokkaðir upp á handahlaupum virðist hann hið minnsta hvað Sjálfstæðisflokkinn varðar — það eru auðvitað báðir þeir ráðherrar sem fara fyrir þeim málum sem búa til hinn svokallaða þriðja orkupakka, hjá þessum tveimur ráðherrum upplifir maður það sem svo að meiri tími og orka hafi farið í að sannfæra eigið bakland um að þetta sleppi nú allt fyrir horn en orkan sem fór í að tryggja að að allri þeirri varúð væri gætt sem tilhlýðileg er í málinu og að menn nýttu það svigrúm sem EES-samningurinn gefur okkur til að senda mál til baka til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Hvernig lítur það út gagnvart — velkomnir á svæðið, herramenn — hv. þingmanni að svona mikil áhersla hafi verið lögð á innri kynningu í staðinn fyrir að ræða málin við fulltrúa Evrópusambandsins?