149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:29]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mig langar aðeins að koma inn á þessar greinar sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa verið að skrifa, bæði í gær og í dag. Nú birtist grein í Fréttablaðinu í dag eftir Vilhjálm Árnason, þingmann Sjálfstæðisflokksins, þar sem hann heldur áfram á sömu braut og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir gerði í grein í Morgunblaðinu í gær, í þá veru að að það sé svo mikill hagur í því að innleiða þennan orkupakka vegna þess að í honum sé fólgin svo mikil neytendavernd. Í grein hv. þm. Vilhjálms Árnasonar segir, hann er að fjalla hér um orkupakkann, með leyfi forseta:

„Reglur hans leiða til aukinnar neytendaverndar og stuðla að aukinni samkeppni og jafnræði milli aðila, sem alla jafna stuðlar að lægra verði …“.

Þetta er nánast orðrétt sama setning og í grein hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur í Morgunblaðinu í gær.

Nú hef ég fyrr í þessari umræðu sagt frá upplýsingum frá EFLU verkfræðistofu þess efnis um 370 heimili hafi skipt um söluaðila — það er neytendaverndin, lægra verðið sem verið er að tala um — árið 2017. Af 140.000 heimilum hafa 370 skipt um söluaðila, herra forseti. Það eru sem sagt 0,3% heimila í landinu sem nýta sér hina svokölluðu neytendavernd sem er svo ríkuleg í þessum orkupakka að áliti þessara hv. þingmanna.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Er þetta ekki farin að verða ámælisverð framsetning af hálfu þingmanna Sjálfstæðisflokksins og villandi málflutningur?