149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:31]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir andsvarið. Jú, ég held að þarna séu menn farnir að mála mynd sem er ekki raunveruleg miðað við efnisatriði málsins. Ég skaust hérna inn í hliðarherbergið og sótti þingsályktunartillöguna eins og hún liggur fyrir. Ég fletti ekki í gegnum nefndarálitið en hvað rökstuðning varðar þá hefur bunan staðið upp úr stuðningsmönnum innleiðingarinnar þess efnis að það sé svo mikil neytendavernd og svo mikið gegnsæi sem hljótist af innleiðingunni að menn þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af því sem eftir er, af einhverju sem skiptir engu máli.

Greinargerðin er einar 17 síður og ég renndi bara í gegnum millifyrirsagnir. Greining mín á þessu gat ekki orðið ítarlegri á þeim stutta tíma sem hv. þingmaður var í andsvari við mig. Mér sýnist ekki ein einasta millifyrirsögn — og er nú nóg af þeim á þessum 15–17 blaðsíðum — fela í sér orðin „gegnsæi“ eða „neytendavernd“, engin þeirra.

Það er því fátt sem bendir til þess að hæstv. utanríkisráðherra hafi þótt ástæða til að hafa einhver sjónarmið sem sneru að gegnsæi og neytendavernd í forgrunni við framlagningu gagna málsins. Ég á vissulega eftir að skoða þetta, ég hugsaði ekki út í þetta atriði fyrr en hv. þingmaður hóf andsvar sitt. Þetta verður því að vera með þeim fyrirvara að ég á eftir að lesa mig í gegnum allan texta greinargerðarinnar aftur. Við snögga yfirferð virðist lítið hafa verið gert með gegnsæi og neytendavernd uppi í utanríkisráðuneyti.