149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:44]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla að halda stutta ræðu sem tengist efni fundarins en kannski er henni helst ætlað að spara tíma sem annars hefði farið í fundarstjórn. Mig langar til að ræða aðeins störf þingsins, málaskrána og forgangsröðun verkefna í þinginu. Við eyðum ansi miklum tíma hér og honum er ekki illa varið, tímanum sem slíkum, í að ræða þetta mál. Þörfin á því að ræða málið er augljóslega brýn og hér snerta menn á nýjum málum, nýjum vinklum, varðandi þetta mál í hverri einustu ræðu, leyfi ég mér að segja. Hins vegar er tímasetningin á umræðunni kannski ekki alveg rétt að mínu áliti.

Ég tel að brýn verkefni bíði í þjóðfélaginu á meðan við sinnum þessari umræðu. Umræðan sem þarf að fara fram um þetta mál getur ekki farið fram að fullu áður en búið er að snerta á ákveðnum hlutum. Hér þarf m.a. að fara fram félagsfræðileg og hagfræðileg greining á áhrifum þessa máls, þ.e. hvaða áhrif það mun hafa á íslenskt samfélag þegar og ef þessi innleiðing á sér stað. Við verðum að spyrja okkur hversu mikilvægt það sé að koma orkupakka þrjú í gegn á þessum tímapunkti.

Það myndi hjálpa verulega, það myndi létta róðurinn hjá fylgismönnum orkupakkans, við að þoka þessu máli áfram ef þeir heyrðu það sem hér hefur verið sagt, þ.e. ef þeir kæmu með lögfræðilega greiningu á álitamálunum, kæmu með lögfræðilega greiningu á því hvort þessir fyrirvarar, ef þeir finnast, haldi og hvort þess séu einhver fordæmi að slíkir fyrirvarar hafi verið settir og á þá hafi reynt. Bent hefur verið á fyrirvara sem Noregur hefur sett fram en þau rök hafa verið hrakin hér í fleiri en einni ræðu. Þeir hafa vissulega verið settir fram en bréfi frá Norðmönnum til sameiginlegu EES-nefndarinnar hefur ekki verið svarað sem bendir til þess að þessir fyrirvarar eigi ekki við.

Ég tel, hæstv. forseti, að nær væri að eyða þessum síðustu dögum sem eftir eru af þinginu í að ræða gríðarlega mikilsverð mál fyrir samfélagið eins og fjármálaáætlun, samgönguáætlun, stefnu í flugmálum, sem við höfum ekki séð líta dagsins ljós þrátt fyrir fögur fyrirheit, heilbrigðisstefnu íslenska ríkisins og heildstætt mat á umhverfislegum, samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum framkvæmdaáætlunar, kerfisáætlunar, í raforkumálum.

Mig langar til að drepa aðeins á það að í allri þessari umræðu höfum við orðið varir við gríðarlegar mótsagnir, m.a. hjá utanríkisráðherra. Hann hefur gagnrýnt Miðflokkinn fyrir að standa hér og ræða þennan orkupakka, sagt að við séum að taka við fyrirmælum frá norska Miðflokknum eða öðrum Norðmönnum. Ég hef ekki orðið var við afskipti þeirra af innanríkismálum okkar Íslendinga, þ.e. innleiðingu orkupakka þrjú. Á sama tíma hefur hæstv. utanríkisráðherra ekki haft sömu áhyggjur af afskiptum sendiherra ESB á Íslandi en þau hafa birst á opinberri síðu sambandsins. Þann 8. júní á síðasta ári hélt Michael Mann, fyrrnefndur sendiherra, því fram að orkupakki þrjú væri til hagsbóta fyrir Íslendinga.

Hvað veldur þessu, hæstv. forseti?