149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:04]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir hans ræðu. Það er sannarlega mikill munur á því efni sem borið er á borð fyrir lesendur blaða. Hv. þingmaður vitnaði til greinar eftir Stefán Ólafsson prófessor. En við áttum rétt í þessu orðaskipti, ég og hv. þm. Jón Þór Þorvaldsson, þar sem m.a. bar á góma greinar þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem hafa verið að birtast undanfarna daga, þar af ein í dag eftir hv. þm. Vilhjálm Árnason. Þar er því haldið fram, herra forseti, órökstutt, að reglur orkupakkans, eins og það heitir, muni leiða til aukinnar neytendaverndar. Svo er sagt að þær muni stuðla að aukinni samkeppni og jafnræði milli aðila sem alla jafna stuðli að lægra verði og betri þjónustu neytendum til handa. Þetta eru náttúrlega algerlega órökstuddar fullyrðingar og stangast á við þekktar staðreyndir í veruleikanum.

Hv. þm. Birgir Þórarinsson hefur til að mynda lagt fram í málflutningi sínum gögn, sem hann þekkir mætavel persónulega, um afleiðingarnar fyrir það byggðarlag þar sem hann á heima, suður með sjó, á Vatnsleysuströnd, hvernig fyrri orkupakkar leiddu af sér hækkun orkuverðs. Það er náttúrlega þekkt að þetta Evrópusamstarf snýst um samræmingu og einsleitni á markaði þannig að ekki er við öðru að búast en að hið tiltölulega lága orkuverð hér á Íslandi, sem heimilin njóta og sem skapar íslenskum atvinnufyrirtækjum ákveðið samkeppnisforskot, muni hækka til samræmis við það sem gerist og gengur í Evrópu.