149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:25]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir hugleiðingarnar. Ég get tekið undir margt af því sem kom fram í máli hans. Ég orðaði það svo í fyrra svari mínu að kerfið vildi fremur skrifast á við sjálft sig. Það er einfaldast. Undirmenn stofnana senda inn jákvæðar umsagnir, það er auðvitað miklu þægilegra. Og það eru meiri líkur á að menn séu í meginatriðum sammála.

Ég ætlaði að lesa upp nokkrar þessar stofnanir — ég er alls ekki að gera lítið úr áliti forstöðumanna eða stjórna þessara stofnana — til að fá yfirlit yfir þetta:

Félag atvinnurekenda skilar jákvæðri umsögn; HS Orka skilar jákvæðri umsögn; Íslensk orkumiðlun er jákvæð; Landsnet jákvætt; Landsvirkjun jákvæð; Náttúrufræðistofnun Íslands jákvæð; Samkeppniseftirlitið jákvætt; Samorka, Samtök orku- og veitufyrirtækja, jákvæð; Samtök atvinnulífsins jákvæð; Samtök iðnaðarins jákvæð; Sterkara Ísland jákvætt — þetta er upptalið. Það eru ekki miklu fleiri jákvæðar umsagnir. Þetta eru langmest fyrirtæki af þeim toga sem ég nefndi. Þá fær maður sýn á það hve allar hinar umsagnirnar, langflestar, sem ég taldi ekki upp, eru neikvæðar. Umsagnir eru yfir 50. Og sveitarfélögin, mörg hver á virkjunarsvæðunum, gjalda varhug við innleiðingu þessa regluverks.