149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:30]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir hugleiðingar hans. Hvort ég hafi tekið eftir einhverri sérstakri reglu í þessu sambandi, það get ég alls ekki sagt og ætla alls ekki að halda því fram. Ég er búinn að vera fremur stutt hér á þingi og ekki séð mörg mál af þessu tagi fara hér í gegn, alls ekki. Ég starfaði lengi í stjórnsýslunni og benti á þá augljósu staðreynd að mjög mörg lagafrumvörp eru samin í ráðuneytunum. Síðan koma þau hingað inn í þingið og til nefnda og óskað er eftir umsögnum. Svo koma umsagnir og eins og ég orðaði það, nánast úr næsta herbergi eða undirstofnunum ráðuneytisins. Það væri óeðlilegt og væri jafnvel fréttnæmt ef þær umsagnir væru harkalega neikvæðar gagnvart frumvarpi eða tillögum sem koma úr ráðuneytum og eru samin þar í kerfinu. Það væri aldeilis fréttnæmt og hefur verið í sumum tilvikum ef undirstofnanir eða einhverjir aðilar mjög tengdir þeim stofnunum væru með afskaplega neikvæðar umsagnir.

Ég er bara að benda á hið augljósa. Auðvitað eru þessar umsagnir yfir höfuð jákvæðar af eðlilegum orsökum. Ég tel því að vægi umsagna sem koma frá óháðum aðilum hljóti að vera meira virði og meira virði að hlusta á þær.