149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:36]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Það er miður að fylgismenn þessa máls skuli ekki fáanlegir til að taka þátt í þessari umræðu en þá er ekki um annað að ræða en að líta á það sem þeir halda fram í greinum í dagblöðum. Fyrr í morgun fjallaði ég um þætti í grein hv. þm. Vilhjálms Árnasonar sem birtist í dag í Fréttablaðinu og í gær vék ég nokkrum orðum að grein sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir ritaði í Morgunblaðið í gær.

Svo að ég grípi niður í grein hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur þá segir hún í fyrri umræðu á Alþingi um orkupakkamálið að mikið hafi farið fyrir gagnrýni á að ekki hafi verið aflað álits á hugsanlegum afleiðingum þess að hafna því að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Hún greinir frá því að utanríkisráðuneytið hafi leitað til fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins, Carls Baudenbacher, um slíkt álít. Það er ágætt að leita til þessa ágæta svissneska lögmanns sem áður var dómari við EFTA-dómstólinn en er nú sjálfstætt starfandi lögmaður og ráðgjafi. Ég hafði reyndar tækifæri til að víkja nokkrum orðum að þeim ágæta manni fyrir nokkrum vikum því að viðtal birtist við hann í Morgunblaðinu þar sem hann fjallaði um Icesave-samningana og lýsti því viðhorfi sínu að þeir hefðu verið á pari við, ef ég má leyfa mér að orða það svo, Versalasamningana. Ég þarf kannski ekki að segja meira um það. Það vita allir hvernig þau mál öll voru vaxin. Þannig að þetta var mjög athyglisvert viðtal við við lögmanninn og skarpleg greining.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir segir í sinni grein að Baudenbacher hafi í álitsgerð sinni komist að þeirri niðurstöðu að þótt mögulegt væri að hafna upptöku nýrrar löggjafar ESB í EES-samninginn á lokastigum málsmeðferðar — það kom fram í fréttum, herra forseti, að herra Baudenbacher lýsti því að Íslendingar ættu kost á því að beita 102. gr. EES-sáttmálans — en hún hefur eftir honum, í sinni grein, að þriðji orkupakkinn sé ekki mál af því tagi að réttlætanlegt sé að grípa til slíkra neyðarráðstafana. Ég velti fyrir mér hvort hann hafi notað orðalag af því tagi. Það er hvergi í 102. eða 103. gr., eða þeim lagagreinum sem þarna koma til álita, vikið að neinum neyðarráðstöfunum. Í skýringum með frumvarpinu, þegar EES-samningurinn var lögfestur, er ekki talað um 102. gr. sem neyðarráðstöfun eða öryggishemil eða neitt af því tagi. Þetta er ósköp einfaldlega ákvæði sem fjallar um málsmeðferð á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Síðan er haft eftir doktor Baudenbacher að það gæti teflt aðild Íslands að EES-samningnum í tvísýnu verði þriðja orkupakkanum hafnað. Ég hef ekki séð haft eftir doktor Baudenbacher neinn rökstuðning fyrir þeirri fullyrðingu, ef þetta er rétt eftir honum haft sem ég út af fyrir sig dreg ekki í efa. Auðvitað er mikill fengur að því að fá lögfræðilega greiningu frá manni á borð við hann en að öðru leyti sýnist mér að það sem eftir honum er haft séu einhvers konar pólitískar hugleiðingar.

Ég hafði tækifæri til þess í utanríkismálanefnd, þar sem ég sat í forföllum annarra, að spyrja prófessor Davíð Þór Björgvinsson hvort einhverjar heimildir væru fyrir því í EES-samningnum að beita okkur, ef svo bæri undir, ef við myndum leita eftir þessari sáttameðferð, refsi- eða hefndaraðgerðum. Hann svaraði því alveg fortakslaust að engar slíkar heimildir væru fyrir hendi. Þessar hugleiðingar um að það gæti teflt aðild Íslands að EES-samningnum í tvísýnu verði þriðja orkupakkanum hafnað eru því órökstuddar.