149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:49]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekkert að því að doktor Baudenbacher lýsi því viðhorfi að honum finnist ekki að Íslendingar eigi að nýta þann rétt sem þeir eiga samkvæmt 102. gr. En meðan ekki liggur fyrir rökstuðningur um að þetta mál sé ekki af því tagi að það eigi við og meðan ekki liggur fyrir rökstuðningur fyrir því að þetta gæti sett samstarfið, öllu heldur teflt samstarfinu í tvísýnu, væri kannski ekki mjög mikið gerandi með yfirlýsingar af þessu tagi. Reyndar er meira kjöt á þessum beinum.

Fram kemur í Morgunblaðinu 10. maí, haft eftir hinum ágæta prófessor og doktor Baudenbacher, a.m.k. er það lagt þannig út í ritstjórnargrein blaðsins þann dag, að ef marka megi orð Baudenbachers sé Íslandi í raun pólitískt skylt að samþykkja það sem Norðmönnum og ESB dettur í hug að bera á borð hvað sem EES-samningurinn sjálfur segir. Í þeirri ritstjórnargrein er spurt: Ætla þingmenn að láta þvinga sig til samþykkis við þriðja orkupakkann á þessum forsendum? Spurt er: Gefa þeir, þ.e. þingmennirnir, ekkert fyrir sjálfstæði Íslands og fullveldi?

Málflutningur í grein hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur er gagnrýnislaus. Honum er teflt fram eins og hér sé um einhverjar staðreyndir að tefla. Og það eru fleiri gagnrýnislausir. Ég minni á að hv. þingmenn, formenn Samfylkingar og (Forseti hringir.) Viðreisnar lýstu því að þau væru reiðubúin að samþykkja þennan orkupakka áður en gögn málsins voru lögð fram á Alþingi, þau (Forseti hringir.) lýstu því að þau væru tilbúin að samþykkja orkupakkann óséðan.