149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta yfirferð á því hvað gerð 72/2009/EB kveður á um. Ef ég skildi hv. þingmann rétt er hann einmitt að fjalla um að þessar svokölluðu, ég held að hann hafi kallað það smáskammtalækningar eða að taka hlutina inn með teskeið, en hann fjallaði í nokkrum liðum um það hvernig hægt er að fullyrða að verið sé að gera kröfu um að eitt stórt fyrirtæki geti ekki í rauninni starfað og hamlað öðrum á markaði. Í inngangi 3. liðar þessarar gerðar sem þingmaðurinn fór yfir er talað um frjálsa vöruflutninga, staðfesturétt og frelsi til að veita þjónustu o.s.frv. og það sé einungis mögulegt á markaði sem er að fullu opinn þar sem neytendur geta sjálfir valið sér birgi og birgjum sé gert kleift að dreifa frjálst til allra viðskiptavina sinna.

Síðan er talað um í 57. lið reglugerðarinnar, með leyfi forseta:

„Efling sanngjarnar samkeppni og auðvelds aðgangs að mismunandi birgjum og að stuðla að aukningu í nýrri raforkuframleiðslugetu skal vera forgangsatriði fyrir aðildarríkin …“

Áfram er haldið. Í 59. lið er talað um:

„Þróun raunverulegs innri markaðar … skal vera eitt af helstu markmiðum þessarar tilskipunar og stjórnsýsluleg málefni varðandi samtengingar yfir landamæri og svæðisbundna markaði skulu því vera eitt helsta verkefni eftirlitsyfirvalda …“

Við höfum rætt töluvert um eftirlitsyfirvöldin í þessu sambandi, ACER og ESA og hvað þetta heitir nú allt saman. Mig langar að spyrja þingmann: Er einhvers staðar í þessu öllu saman verið að fá undanþágu frá eða aðlögun að reglugerð 72/2009/EB? Erum við ekki í rauninni að taka að okkur að innleiða hana með húð og hári?