149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að það hefur enginn stigið í þennan ræðustól og sagt að hann vilji fórna því ágæta samstarfi sem við eigum með EES-samningnum, en tek undir það að sá hræðsluáróður og þær furðulegu fullyrðingar sem hér hafa verið uppi um að ekki megi hallmæla þeim samningi grefur vitanlega undan honum. Ef þetta er einhliða tilkynning til Íslands, þessi svokallaði samningur, ef má orða það þannig, þá erum við að sjálfsögðu á vondum stað varðandi þetta mikilvæga plagg. Það er hins vegar ekki hafið yfir gagnrýni. Ekkert er hafið yfir gagnrýni af því samstarfi sem við erum í eða um við önnur ríki.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann í ljósi þess að hann fór svo ágætlega yfir 72. gr. tilskipunarinnar, hvort hann kannist við að einhver stjórnarliði sem hlýtur að vita betur en við, varla væru menn annars að ana svona áfram með að samþykkja þetta, hafi komið hingað upp og lýst framhaldinu á þeirri þróun miðað við þessa grein í fjórða orkupakkanum. Hefur hv. þingmaður fengið einhverjar upplýsingar um að til standi í hinum fjórða orkupakka sem liggur nú fyrir, ekki hjá okkur en hann liggur fyrir annars staðar, að halda áfram að þróa þetta orkusamstarf á þeim nótum sem þingmaðurinn fór yfir, þ.e. að gera markaðinn einsleitari, að halda áfram með þetta og gera þetta þannig að erfiðara verði fyrir ríkisfyrirtækin að starfa í einhvers konar einokunarumhverfi — við höfum séð það reyndar frá Evrópu að þar er Evrópusambandið á fullu að berjast gegn stóru ríkisfyrirtækjunum — sem sagt, hvort þingmaðurinn hafi séð einhverja eða heyrt einhvern stjórnarliða koma hingað upp og lýsa þessari þróun sem fram undan er í orkupakka fjögur?