149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:22]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Í fljótu bragði man ég ekki eftir því. Það er kannski ekki alveg að marka vegna þess að erindi stjórnarliða, og áhangenda þessa samnings í þingsalnum, í þennan ræðustól hefur yfirleitt ekki verið að lýsa samningnum sem slíkum það sem ég hef heyrt. Mestan part hafa þeir komið upp í ræðustól til þess að hallmæla þeim sem eru á móti og efast. Flestir hv. þingmenn sem eru áhangendur þriðja orkupakkans hafa yfirleitt komið hingað upp til að lýsa vandlætingu sinni á þeim hópi sem hefur efasemdir. Og ef ég má að orða það þannig hafa þeir í raun og veru komið upp í stólinn til að skjóta sendiboðann en ekki til að reyna að svara eða útskýra eða til að telja fram kosti.

Það er kannski eitt, fyrst hv. þingmaður spyr um þetta, maður hefur eiginlega beðið þess með nokkurri eftirvæntingu að þeir sem brenna mjög fyrir þriðja orkupakkanum myndu koma hingað upp og flytja leiftrandi skilaboð um það hvað er svo dásamlegt við að innleiða þennan pakka. Hvað er svo nauðsynlegt við að gera það? Hvernig mun hann gerbreyta lífi okkar til hins betra? En ég hef bara ekki heyrt þau rök enn þá.

Allt það sem hefur verið borið á borð hefur eiginlega enginn nefnt fjórða orkupakkann, og enginn af þessum ágætu stjórnarþingmönnum, ef ég man rétt. Mér finnst umræðan af þeirra hálfu í sjálfu (Forseti hringir.) sér lítið hafa snúist um orkupakkann sjálfan og ágæti hans.