149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Við höfum verið að kalla eftir því um nokkurt skeið að fá frekari skýringar frá stjórnarliðum, þar á meðal hvað framhald málsins muni þýða fyrir Ísland.

Hv. þingmaður fór ágætlega yfir ákveðin atriði sem tengjast því að sjálfsögðu og við hljótum því að velta því fyrir okkur hvort ekki sé full ástæða til að þeir komi hingað í ræðustól, þingmenn stjórnarflokkanna og þeir sem eru hugsanlega fylgjandi þessu máli öllu saman, og fari með ítarlegum hætti yfir með okkur hvað það þýðir fyrir framhaldið ef við samþykkjum orkupakka þrjú núna, hvaða áhrif orkupakki fjögur mun t.d. hafa á það sem hv. þingmaður las hér upp, sem við þurftum sjálf að finna út úr hér í gærkvöldi og í nótt. Um leið og markmið Evrópusambandsins er nokkuð ljóst er óljóst hvernig það mun tengjast eða hvernig og hvaða áhrif það mun hafa á Ísland og íslenska hagsmuni og íslenska kerfisuppbyggingu, þ.e. um umsýslu með raforkumarkaðnum og hvaða heimildir verða eftir og slíkt.

Mig langar að spyrja þingmanninn hvort ekki sé mjög mikilvægt í framhaldi af þessari ágætu ræðu að fá frekari upplýsingar, fá frekari gögn, lögfræðilegt mat á stjórnskipulegum þáttum og öðru slíku er varðar fjórða orkupakkann áður en áfram er haldið, vegna þess að allt er þetta samtengt. Þegar maður leggur saman orkupakka þrjú og fjögur er maður kominn með gríðarlega stóra summu sem er mjög mikilvægt að hafa yfirsýn yfir og eitthvert mat á breytingum, afleiðingum, (Forseti hringir.) plús það hvað við græðum á þessu.