149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:33]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni kærlega fyrir. Mér fannst sláandi að heyra talað um álit Carls Baudenbachers hér áðan, vegna þess að það er í rauninni pólitísk reifun hans á því hvað muni hugsanlega gerast ef við höfnum pakkanum, eins og það kallast, þ.e. ef við sendum pakkann til sameiginlegu EES-nefndarinnar til að rýna betur hvernig við getum innleitt orkupakka þrjú með sem bestum hætti.

Það er merkilegt og það er sláandi að heyra það að stjórnarliðar hafa haldið fram nákvæmlega þessum rökum, þ.e. pólitísku áliti einstaklings sem kemur að grunni frá Evrópusambandinu. Mér finnst sláandi að gera mér grein fyrir því að orð eins og neyðarhemill kemur ekki frá Íslandi. Orð eins og aukin neytendavernd er ekki frá Íslandi. Og það er sannarlega ekki frá Íslandi komið að ef við sækjum við okkar lögbundnu, réttu leið, samningsleið, muni EES-samningurinn vera í uppnámi. Þetta er allt farið að skýrast aðeins betur í höfðinu á mér. Ég er sannarlega viss um að ef við stöndum ekki rétt að málum nú þá getur myndast skaðabótakrafa allra þeirra hagsmunaaðila sem lagt hafa þvílíkar fúlgur fjár í þetta ferli allt saman.