149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:41]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni kærlega fyrir. Að mínu viti halda þessir fyrirvarar ekki. Ég er alveg handviss um það vegna þess að við höfum slíkt dæmi frá Noregi. Þar voru settir átta fyrirvarar til að allt gengi upp sem þar var lagt upp með, allt varðandi orkupakka þrjú. Eina leiðin okkar til að standa rétt að málum þannig að við fáum ekki á okkur einhvers konar skaðabótaskyldu er að vísa þessu til EES. Það er það eina rétta. Það er eina lagalega rétta ferlið sem við eigum að fara í.

Það er alveg ljóst að við þurfum að huga vel að því hvað gerist þegar sæstrengur verður lagður hingað, því að eins og ég sagði er það ACER sem mun skera úr um ef koma upp álitamál varðandi hann. Ég get því ekki ítrekað það nógu oft að okkur ber að fara lagalega rétta leið vegna þess að dæmin sanna að yfirlýsingar halda ekki vatni þegar út í ána er komið. Við þurfum að grípa inn í núna.