149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:43]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt mjög ágætt að hv. þingmaður skuli nefna dæmi frá Noregi vegna þess að komið hefur fram í umræðunni að málaferli eru í Noregi fyrir stjórnlagadómstól um hvort upptaka þessa sama orkupakka þar hafi staðist norska stjórnarskrá. Úrskurður um það efni mun falla eða það mál mun verða tekið fyrir í stjórnlagadómstólnum 23. september næstkomandi.

Ég vil þess vegna spyrja hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála því að okkur beri að leggja það mál sem við erum með hér til hliðar þar til séð verður hver úrslit málanna fyrir stjórnlagadómstólnum í Noregi verða, hvort talið verður að upptaka orkupakka þrjú þar standist norska stjórnarskrá, og hún er ekki mikið frábrugðin þeirri sem við búum við. Í annan stað hefur komið í ljós að svo virðist vera að norsk fyrirtæki hafi verið mjög berskjölduð fyrir þeim kostnaðarauka sem hefur orðið við upptöku orkupakka þrjú þar. Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þingmann einnig að því hvort ekki sé nauðsynlegt að gera úttekt á fjárhagslegum afleiðingum þess að taka pakkann upp fyrir fólk og fyrirtæki þannig að við vitum nákvæmlega hvað við erum að bjóða fólki upp á og hvað við erum að kalla yfir okkur.