149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:48]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég neyðist til að gera hér hlé á ræðuröð minni sem ég hef kallað: Og hvað svo? Þar hef ég reynt að koma inn á hver áhrifin á umhverfi okkar verða að aflokinni innleiðingu. Ástæða þess að ég vil skjóta hér inn ræðu um annað efni er sú að ég las enn eina grein stuðningsmanna orkupakka þrjú í Fréttablaðinu áðan en hún var frá hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni. Þar var enn einu sinni komið inn á mikilvægi aukinnar neytendaverndar og gegnsæis sem verið væri að innleiða með hinum svokallaða orkupakka þrjú. Þá fór ég að hugsa að ég minntist nú ekki mikillar umræðu um aukna neytendavernd eða gegnsæi í framsöguræðum hæstv. utanríkisráðherra strax í upphafi, né heldur í ræðu framsögumanns meirihlutaálits utanríkismálanefndar, hv. þm. Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur. Ég fór þá í gegnum þingsályktunartillöguna sjálfa og þar er hér um bil ekkert, leyfi ég mér að segja, um neytendavernd eða gegnsæi. Það sama á við um nefndarálitið, þegar maður fer í gegnum það. Það sem fyrst og fremst snýr að neytendatengdum málefnum þar er lýsing á því hvað gerðist við innleiðingu fyrsta og annars orkupakkans. Hér er ég t.d. með framsöguræðu hæstv. utanríkisráðherra Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og hér er ég með framsöguræðu formanns meiri hluta utanríkismálanefndar, hv. þm. Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur. Í þessum fjórum lykilplöggum sem varða málið er ekkert sem bendir til þess að aukin neytendavernd, umfram það sem innleitt var með fyrsta og öðrum orkupakkanum, eða áhersla á aukið gagnsæi til handa neytendum sé í einhverjum forgrunni. Það er eins og þetta séu bara atriði sem stuðningsmenn innleiðingarinnar hafi fundið til í panikinni sem greip um sig þegar menn áttuðu sig á því að menn vissu ekki hvar í veröldinni meintir fyrirvarar voru.

Ég verð að óska eftir því að með einhverjum ráðum hlutist forseti til um að einhver þeirra ágætu stuðningsmanna, helst framsögumaður meiri hluta nefndarálitsins, svari þessu. Óskastaðan væri auðvitað að fá hæstv. utanríkisráðherra, Guðlaug Þór Þórðarson, á svæðið. Nú veit ég ekki hvort hann er kominn aftur til landsins eður ei. En við þingmenn Miðflokksins sem höfum staðið hér og reynt að komast í gegnum kjarnaatriði þessa máls — okkur er nokkur vorkunn í því að hafa verið, kannski með klókindum, sannfærð um að það væru einhver lykilatriði, einhver kjarnaatriði, sem sneru að aukinni neytendavernd og gegnsæi til handa almenningi í þessu máli. Það virðist vera froðan ein þegar á reynir. Og hvað er þá eftir ef þetta var það sem helstu stuðningsmenn innleiðingar þessa orkupakka höfðu fram að færa þegar spurt var: What´s in it for us? Hvers vegna ættum við að innleiða þetta? Hvað er í þessu? Það var neytendavernd, aukin neytendavernd og gegnsæi. Þetta hefur staðið upp úr hverjum stuðningsmanni innleiðingarinnar á fætur öðrum síðan síðari umr. hófst. Þetta er auðvitað ekki boðlegt.

Ég get tekið það á mig að maður hefði átt að lúslesa þetta fyrr með þessi atriði í huga. En það er ekki boðlegt að einhver tilgerð kjarnaatriði séu diktuð upp þegar menn átta sig á að þeir eru lentir í tómum vandræðum með að verja málið. Og nú erum við kominn á núllpunkt hvað þetta varðar. Ég verð aftur að biðja um aðstoð hæstv. forseta. Við verðum eiginlega að fá einhvern til samtals um þetta, því að nú hef ég ekki minnsta grun um hvað í þessu máli er til hagsbóta fyrir íslenskan almenning og þar með neytendur.