149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:53]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er eiginlega grátbroslegt. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir góða ræðu sem vakti mig vel, hafi ég verið sofandi, sem ég var ekki. En gott og vel. Það er nefnilega alltaf að skýrast betur og betur að stjórnarliðar virðast byggja sína rökfærslu, sína skoðun, á orðum Carls Baudenbachers, vegna þess að þessi orð eru tekin úr pólitískum hugrenningum hans, þ.e. aukin neytendavernd, aukið gagnsæi. Ég minntist hér fyrr á orðið neyðarhemill og að lokum á það að innleiðum við ekki orkupakka þrjú verði EES-samningurinn hreinlega í uppnámi.

Ég get vel tekið undir það að við séum komin á nokkurs konar núllpunkt. Það sem ég vil inna hv. þingmann sérstaklega eftir er: Hver er staðan núna? Ég heyrði að hann kallaði eftir því að hæstv. utanríkisráðherra mætti gjarnan vera með okkur hér. Ég tek undir það. En getur hv. þingmaður bent okkur á mögulegar leiðir héðan í frá?