149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:57]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir. Það er alveg ljóst í mínum huga að við þurfum að skoða málið betur. Við þurfum að greina textann sem hefur komið fram. Ég veit alveg hvernig þetta er verandi ný á þingi — pappírar og gögn sem við þurfum að lesa flæða um og EES-gerðirnar eru kannski ekki alveg uppáhaldslesefnið, en ég er þó að fá töluverða þjálfun í þeim efnum.

Ég nefndi áðan að margir umsagnaraðilar hefðu ekki verið jákvæðir í garð orkupakka þrjú. Mér finnst það ágætisleið, sem hv. þingmaður nefnir, að vísa þessu máli sem komið er hér í þingsal aftur til nefndar þannig að jafnvel sé hægt að kalla til gesti. Þó svo að gestir hafi komið í fyrri umræðu verður oft við síðari umræður, ég hef nefnt þetta áður, til nýr sannleikur og nýr grundvöllur til að meta stöðuna. Ég held að við séum á þeim tímapunkti núna.

Það eina sem ég hef lesið mér til gagns varðandi neytendavernd er að hún felist í því að ég geti skipt um það fyrirtæki sem ég kaupi af þá orku sem ég þarf. En ég sé það fyrir mér að orkan verði jafn dýr alls staðar. Þetta er alveg eins og með bensínstöðvarnar. Við fáum endalaus SMS, fyrst frá einu fyrirtækinu sem selur okkur eldsneyti og nokkrum sekúndum síðar kemur næsta og yfirbýður kannski bara um nokkra aura, þó að ekki sé meira. Þetta verður að vera mun gagnsærra en það er í dag. Við erum alltaf að öðlast nýjan og nýjan sannleika og við verðum að geta skoðað málið betur.